MEÐ SÖNG Í HJARTA!

Tónlist hefur alla tíð verið hluti af mínu lífi. Sem ungur drengur gladdi það mig ávallt að sjá föður minn rúlla inn götuna á hljómsveitarútum en hann var rótari fyrir flestallar hljómsveitir níunda og tíunda áratugs síðustu aldar. Ég lét mig dreyma um að verða tónlistarmaður og ferðast um landið að skemmta fólki.

Lífið hefur svo sannarlega leikið við mig. Í 14 ár hef ég fengið að upplifa æskudrauminn með því að starfa sem trúbador og hef sungið og spilað með söng í hjarta.

Tónlistarferill minn byrjaði á táningsárunum í bílskúr í Kópavogi en þar höfðum við nokkrir vinir komið okkur saman í hljómsveit og ekki leið á löngu fyrr en við vorum byrjaðir að troða upp í félagsheimilum víðsvegar um landið

Árið 2008 lá leiðin til Lundúna: London Music School í Englandi. Að loknu námi var farið í ófáar tónleikaferðir um Bretlandseyjar með hljómsveitinni Yngve and the innocent en þar spilaði ég á bassa og söng.

í byrjun árs 2011 lá leið mín aftur heim og fljótlega eftir það datt ég inná trúbadorageirann, spilandi á öllum helstu börum landsins og er enn að.

Með gítarinn í hendi og röddina að vopni syng ég endalaust, þér og mér til skemmtunar.

Lifi Lifandi Tónlist

Senda Fyrirspurn